Hættur frjáls markaðshagkerfis

Kommúnismi er falleg hugsun en í honum er enginn hvati til árangurs. Ég held að sagan hafi afgreitt hann ágætlega. Það má vera að enn séu til einhverjir kommúnistar en ég held að þeir séu flestir búnir að átta sig.

Öðru máli gegnir um fylgismenn óhefts kapítalisma. Þeir eru ekki búnir að átta sig enn. Kapítalismi er sanngjörn en á sama tíma grimm hugmyndafræði sem reynir að hámarka afköst efnahagskerfisins. Óheftur kapítalismi gengur enn lengra og gerir ráð fyrir að með því að sleppa taumunum af markaðsöflunum muni hámarksárangur nást í efnahagslegu tilliti. Án þess að fara nánar út í þessa hugmyndafræði, þá langar mig til að setja fram tvo punkta sem ganga annars vegar gegn rökum fyrir kapítalisma (sem er að mínu mati ekki það sama og frjálshyggja, þó þau séu stunduð notuð sem samheiti) og hins vegar gegn rökum óhefts kapítalisma (sem er að markaðurinn muni alltaf leitast við að ná jafnvægi, jafnvel eftir áföll og áföllin muni grisja frá hin veikari fyrirtæki og til lengdar styrkja þau sem eru betur rekin og þar með auka afköst efnahagslífsins).

1. Auðsæld er ekki það sama og hagsæld. Kapítalismi veitir okkur auðsæld en ekki endilega hagsæld.

2. Óheftur markaðsbúskapur er eins og hvert annað kerfi, það lýtur engum sérstökum lögmálum og maður veit þannig ekki hvort jafnvægið sem kerfið nær þjóni endilega hagsmunum nokkurs manns. Jafnvægið gæti þess vegna orðið algert hrun. Þess vegna þarf að byggja öryggisgirðingar.

Rök:

1. Fyrsta hagsmunamál allra manna er öryggi, ekki auðsæld. Þó svo auðsæld geti fylgt öryggi þá er það alls ekki sjálfgefið. Sá fátæki býr við lítið fjárhagslegt öryggi, ótryggt fæðuframboð og þar með ótryggt líkamlegt öryggi. Sá ríki getur e.t.v. keypt sér líkamlegt öryggi af fyrirtæki sem selur öryggisþjónustu, en hann má sín lítils gegn ofureflinu þegar svöngu fátæklingarnir gera byltingu. Það má því færa rök fyrir því að besta öryggi, bæði fátæklingsins og ríka mannsins, sé umhverfi þar sem ekki er of mikið um öfgar. Þar sem allir lifa í sátt og samlyndi.

Hagsæld er samsett hugtak sem byggir á því að fullnægja hinum ýmsu þörfum mannsins, öryggi (bæði efnahagslegt og líkamlegt), hamingja, árangur, friður o.fl. Mikilvægi þessara þátta er misjafnt milli manna en því meira sem maður hefur af einhverjum af þessum þáttum, því minna virði er að fá meira af því sama. Þess vegna er til lítils að hafa mikið efnahagslegt öryggi ef maður er óhamingjusamur og að sama skapi er til lítils að vera hamingjusamasti maður í heimi þegar maður er að svelta til bana.

Lykilatriði í þessu er að halda jafnvægi milli hinna ýmsu þátta og ekki reyna að hámarka einhvern einn þátt. Því skýtur svolítið skökku við hve mikið vægi efnahagslegur árangur hefur í kapítalisma. Kapítalismi er vissulega kenning um hvernig efnahagsstjórn sé best háttað, en hann er þó yfirleitt framkvæmdur þannig að hinum atriðunum er gefinn lítill gaumur.

2. Markaðskerfi er dæmi um flókið kerfi (e. Complex Adaptive System), þar sem margar einingar (fólk) eiga samskipti og viðskipti hver við aðra, hver á sinn hátt. Slíkt kerfi má auðveldlega bera saman við vistkerfi eða eðlis/efnafræðileg kerfi.

Það eina sem við vitum um óheft markaðskerfi er að þau muni ná jafnvægi eftir tímabundið ójafnvægi. Við höfum hins vegar ekki hugmynd hvert það jafnvægi verður en hvort það jafnvægi verði gott fyrir alla, fáa eða yfirhöfuð nokkurn mann. Þegar við ákveðum að taka í notkun efnahagskerfi, þá hljótum við að gera þá kröfu að kerfið þjóni hagsmunum samfélagsins. Við hellum ekki bensíni í skottið á bílnum okkar, kveikjum í og vonum að við komumst á áfangastað. Nei, við hellum því í gangverk sem hefur verið hannað til að knýja bílinn áfram. Ef við bara látum leika á róðanum, þá eigum við í mikilli hættu að kerfið taki sína eigin stefnu og skilji okkur eftir í rykmekkinum. 

Önnur hætta slíkra kerfa er að þau eiga það til að vera nokkuð stöðug í langan tíma þótt ýmsir umhverfisþættir breytist en þegar umhverfisþættirnir fara út fyrir ákveðin mörk, þá hrynur kerfið mjög skyndilega. Þannig hafa ýmis vistkerfi, t.d. örverulíf vatna, hrunið á örskömmum tíma vegna þess að magn ákveðinna efna varð of hátt eða of lágt; það skömmum tíma að örverurnar náðu ekki að aðlagast breyttum aðstæðum.

Þótt efnahagskerfi séu ekki vistkerfi, þá lúta þau öllum þeim lögmálum sem kerfi almennt gera og í þeim finnast sömu hættur og í öðrum kerfum, svo sem sjálfmagnandi sveiflur (eigintíðni), kaótísk hegðun, skyndihrun o.fl. Það að treysta blint á kerfið eins og sumir kapítalistar boða (frjáls markaðshyggja, Laissez faire) er stórhættuleg hugsun vegna þess að þú veist ekkert hvar þú endar, bara að þú endar einhvers staðar. Þess vegna þarf að beisla krafta kerfisins, byggja inn öryggisþætti og tryggja að kerfið þjóni manninum en ekki öfugt.

Ég er alls ekki að segja að mikið regluverk sé af hinu góða. Þvert á móti tel ég að eigi að takmarka það eins og frekast er unnt og leyfa einstaklingnum að njóta sín. En án reglna og öryggisatriða er ég viss um að kerfið mun springa í andlitið á okkur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Pax pacis.

Mikið vildi ég að þessi grein þín kæmi vel fyrir almenningssjónir svo hann væri eitthvað fróðari,og þá á ég við þá sem ekki hafa hugsað út í þessi mál áður.

Kær Kveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 02:12

2 Smámynd: Pax pacis

Sæll Þórarinn,

Takk fyrir athugasemdina. Kannski ég tengi þetta einhverri viðeigandi frétt við tækifæri.

Kveðja,
Pax

Pax pacis, 6.12.2008 kl. 03:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

pax pacis

Höfundur

Pax pacis
Pax pacis
Áhugamaður um lýðræði, gegnsæi, jafnræði og stjórnmála- og viðskiptalegt siðgæði.

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 265

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband